Tæknirisarnir Apple og Qualcomm hafa komist að samkomulagi um að útkljá öll útistandandi dómsmál sín á milli utan dómstóla. Í sameiginlegri tilkynningu um málið kemur fram að öll dómsmál milli risanna tveggja um allan heim hafi verið felld niður. BBC segir frá .

Apple þarfnast varla sérstakrar kynningar, en Qualcomm framleiðir örgjörva sem farsímar nota til að tengjast símkerfum. Fyrirtækin höfðu staðið í illvígum deilum eftir að Apple sakaði Qualcomm um að ofrukka sig.

Fram hefur komið að samkomulagið feli í sér greiðslu frá Apple til Qualcomm, en ekki hefur verið gefið út hversu há hún er.

Þá hafa félögin gert með sér sex ára samning um nýtingu einkaleyfa, auk þess sem samið hefur verið um að Qualcomm útvegi Apple íhluti næstu árin. Símar frá Apple munu því væntanlega nota samskiptaörgjörva Qualcomm á ný á næstunni, en frá 2016 hafa sumir símar þess innihaldið örgjörva frá helsta keppinaut Qualcomm, Intel.

Hlutabréf Qualcomm hækkuðu um hátt í fjórðung eftir tilkynninguna, en engin teljandi hreyfing varð á hlutabréfaverði Apple.