*

fimmtudagur, 24. janúar 2019
Erlent 30. nóvember 2015 15:18

Apple sparar þróunarféð

Miðað við Google, Facebook og Qualcomm fjárfestir Apple mjög litlu fjármagni í þróun og rannsóknir.

Ritstjórn

Aðeins um það bil 3,5% hagnaðar síðasta árs fór í rannsóknir og þróun tæknibúnaðar hjá raftækjarisanum Apple. Bloomberg segir frá þessu.

Þetta er frábrugðið tölum annarra fyrirtækja í sama geira, en til að mynda hefur Facebook endurfjárfest um 21% af hagnaði síðasta árs í rannsóknir og nýþróun, og sama gildir um Google og Qualcomm.

Ástæðan fyrir þessu er tvöföld. Í fyrsta lagi hefur það verið ein af meginstefnum Steve Jobs allt frá stofnun fyrirtækisins að ekki þurfi að eyða of miklu fjármagni í þróun og rannsóknir.

Auk þess snúast fjárfestingar Apple fremur um að kaupa nýjasta tæknibúnaðinn af örgjörvafyrirtækjum, myndavélaframleiðendum og snertiskjáþróunarfélögum. Apple reiðir sig því mjög á framleiðendur tæknihlutanna, sem keppast sín á milli um að ná athygli og samningum við fyrirtækið.

Til hliðsjónar má nefna að Apple fjárfesti 8 milljörðum bandaríkjadala í rannsóknir og þróun en 30 milljörðum í örgjörva, snertiskjái og myndavélar.

Stikkorð: Apple Google Facebook Tim Cook Tækni Erlent