iCloud mun nú hafa enn sterkari dulkóðanir, en Apple vill gera ómögulegt að smíða bakdyr inn til gagna viðskiptavina sinna. Financial Times segir frá þessu.

Í kjölfar þess að FBI bað Apple um aðstoð við að aflæsa snjallsíma San Bernardino hryðjuverkamannsins, eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um, hefur Apple ákveðið að styrkja varnir sínar í iCloud-hugbúnaði sínum.

iCloud er gagnaver sem er „í skýinu” og býðst öllum viðskiptavinum Apple frítt til þess að geyma ákveðið magn persónulegra gagna - en umfram sett gagnamagn er viðskiptavinurinn krafinn um aukalega greiðslu.

Til þess að gera einstaklingsgögn viðskiptavinanna sem öruggust hefur Apple nú ákveðið að bæta enn meira við dulkóðanaferlana sem hvert skjal undirgengst þegar það er vistað undir kennimerkjum viðskiptavinarins.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um fyrir stuttu styður Bill Gates FBI í málinu, en honum finnst sjálfsagt að alríkislögreglunni sé gefinn aðgangur í þessu eina tilfelli rétt eins og hefur tíðkast varðandi beiðnir FBI til almennra símfyrirtækja.