Allt stefnir í að Apple Watch úrið verði söluhæsta nýjungin í sölu Apple. Síðan tækið fór í sölu hafa 7 milljónir úra verið pantaðar. CNN greinir frá.

Búist er við því að 5 milljónir úra verði komnar á úlnlið neytenda fyrir lok þessa ársfjórðungs. Til samanburðar seldust 125 þúsund iPoddar, 1,1 milljón iPhone-síma og 3,3 milljónir iPadda á fyrstu þremur mánuðunum sem þessi tæki voru til sölu. Apple Watch er fyrsta nýjungin frá Apple í 5 ár.

Hugsanlega er ástæðan fyrir hinni miklu velgengni snjallúrsins sú að um er að ræða fyrstu nýjungina í sögu Apple sem seld er í fleiru en einu landi, en úrið var sett í sölu í níu löndum á sama tíma. Markaðssérfræðingar búast við að í hverri viku sýni eigendur Apple Watch 15 til 20 öðrum einstaklingum úrið, sem talið er ýta undir velgengni þess.