Norska sjávarútvegsblaðið Fiskeribladet/Fiskaren hefur bæst í hóp fjölmargra erlendra fjölmiðla sem róma framgöngu íslenska landsliðsins í knattspyrnu og tengja hana jákvæðum eiginleikum Íslendinga sem hafi fleytt þeim fram í fremstu röð á sviði sjávarútvegs, menningar og lista auk fótboltans. Íslendingar hafi gert sig mjög gildandi sjávarútvegsmarkaði heimsins, þeir státi af heimsþekktum listamönnum og nú eigi þeir sannarlega eitt besta knattspyrnulið Evrópu.

Blaðið fjallar um málið í leiðara og vitnar á forsíðu í mat sérfræðings hjá norsku rannsóknastofnunni NOFIMA, Bent Magne Dreyer, sem segir að áhættusækni, úthald, áræðni og stolt sé skýringin á góðum árangri Íslendinga á svo mörgum sviðum.  Hann minnir að sjálfsögðu á að Íslendingar séu afkomendur Norðmanna sem flúið hafi undan  skattlagningu og ofríki heimafyrir og hafi með innbyggðu úthaldi og vilja til að taka áhættu náð að koma upp fastri búsetu á harðbýlum hjara veraldar.

Íslendingar séu fullir sjálfstrausts, fráhverfir skriffinnsku og vilji ekki að hið opinbera sé að blanda sér alltof mikið inn í atvinnustarfsemina. Þeir setji í axlirnar þegar á móti blási og vinni sig sjálfir út úr vandanum eins og gerðist í fjármálakreppunni öfugt við það sem gerðist í Grikklandi. Aðspurður segir Dreyer muninn á Íslendingum og Norðmönnum þann að hinir síðarnefndu séu ekki eins úthaldsgóðir og orðnir værukærari vegna síns góða efnahags. Hann segir að Svíar eigi heldur ekki svo mikið sameiginlegt með Íslendingum. Svíar séu þekktir fyrir að þurfa að gefa sér langan tíma til að undirbúa alla hluti, eins og til dæmis byggingaframkvæmdir, en Íslendingar hefjist handa strax og þeir fái hugmyndina. Kannski hafi sænska áætlanagerðin og íslenski framgangsmátinn sýnt sig að vera góð blanda í höndum fótboltaþjálfarans Lars Lagerbäck!