Heiðrún Lind Marteinsdóttir er nýr framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Hún telur umræðuna um sjávarútveginn að einhverju leyti á villigötum og telur að núverandi fyrirkomulag sé betra en þau sem finnast annars staðar.

Skilurðu gremju þeirra sem finnst kerfið ósanngjarnt eins og það er í dag?

„Ég get skilið það að því leytinu til að þetta eru auðlindir sem við búum svo blessunarlega við að hafa og að almenningi finnst hann, eða ríkissjóður, eiga tilkall til hlutdeildar í þeim ávinningi sem af hlýst. Þetta er hins vegar ekki þannig að hér sé hægt að stinga niður röri í sjóinn og upp komi peningar.

Núverandi kerfi var sett á árið 1983 og það er ekki nema kannski á liðnum 10 árum sem þetta hefur verið að skila einhverjum raunverulegum fjármunum. Nú erum við loksins farin að sjá afrakstur þess kerfis sem komið var á. Ég vona að fólk kynni sér í það minnsta hvað raunverulega er að skapa verðmætin, þetta er áralöng vinna sem hefur átt sér stað. Það er með útsjónarsemi sem þetta hefur tekist og þeir sem eiga kvóta í dag eru síður en svo þeir aðilar sem fengu kvótann við upphaflega úthlutun.

Það er þetta sem fólki oft svíður, að einhverjir hafi fengið eitthvað því sem næst að gjöf. Þeir sem eiga kvóta í dag eru þeir sem hafa með ráðdeild og útsjónarsemi byggt upp góðan rekstur, hafa getað keypt kvóta og hafa þannig stækkað. Góð markaðssetning erlendis hefur skilað þessu líka. Mikil vinna hefur verið lögð í þetta. Allt tal um að þetta séu fjármunir sem hafa orðið til fyrir því sem næst tilviljun og menn hafi getað sótt hér fisk og selt án nokkurs tilkostnaðar á ekki við rök að styðjast.“

Myndir þú segja að kvótakerfið í dag sé það skilvirkasta og sanngjarnasta sem við getum haft?

„Ég held að þetta sé besta kerfið sem nokkuð ríki hefur haft. Vafalaust má betrumbæta kerfið en umbylting á kerfi sem er að virka í dag er varhugaverð og ég myndi ekki mæla með því. Við erum með sjálfbært kerfi og því er eftir tekið hvernig við höfum verndað fiskistofna.

Þess vegna kemur það á óvart þegar maður heyrir aðila tala fyrir uppboðsleið í ætt við þá sem Færeyingar gera nú tilraun með. Það verður að skoða upp úr hvaða jarðvegi sú hugmynd Færeyinga sprettur að fara í uppboð. Þeir eru ekki vel staddir í dag hvað fiskveiðistjórnina varðar. Sjávarútvegsfyrirtæki mörg hver eru ekki fjárhagslega burðug og fiskistofnarnir á heimamiðum eru illa á sig komnir. Þeir hafa því þurft að leggja höfuðið í bleyti og hugsa hvernig þeir geta náð auknum tekjum út úr þessari atvinnugrein. Það er ekki vandamál sem við Íslendingar erum að fást við.

Við erum blessunarlega með kerfi sem hefur tryggt arðsemi, sjálfbærni og umhverfisvernd. Hvers vegna ættu Íslendingar því að fara í tilraunir með annað kerfi þegar kerfið í dag virkar? Aðilar sem starfa í sjávarútvegi hafa mikla hagsmuni af því að fiskistofnum sé við haldið, þannig að ekki komi til hruns í stofnum með tilheyrandi áhrif á rekstur fyrirtækjanna. Þar tvinnum við saman hagsmuni þjóðarinnar og hagsmuni þeirra sem eru í greininni.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .