Saudi Aramco, stærsta olíufélag heimsins, hefur ráðið lítinn fjárfestingabanka til þess að sjá um hlutafjárútboð sitt. Þetta kemur fram á vef CNN Money.

Um er að ráða Moelis & Company, en fyrirtækið á að hafa náð að sannfæra stjórnendur Aramco um að sniðganga stóru nöfnin á Wall Street.

Hlutafjárútboðið verður að öllum líkindum það stærsta í sögunni og mun þar með toppa hlutafjárútboð Alibaba Group. Stefnt er að því að félagið verði skráð á markað á næsta ári.

Yfirvöld í Sádi-arabíu hafa sagt að Aramco sé metið á um 2.000 milljarða dala. Sala á aðeins 5% hlut myndi því auka hlutaféð um allt að 100 milljarða dala.

Bankinn sem mun sjá um ráðgjöfina, var stofnaður fyrir 10 árum í New York af fyrrum starfsmanni UBS, Ken Moelis. Alls starfa um 650 einstaklingar hjá bankanum.