Eigendur ferðaþjónustufyrirtækjanna Arctic Adventures og Extreme Iceland hafa komist að samkomulagi um kaup Arctic Adventures á Extreme Iceland og miðast kaupin við 1. júlí 2017.  Extreme Iceland heldur áfram starfsemi sem sjálfstætt félag í eigu Arctic Adventures og verða núverandi eigendur Extreme Iceland hluthafar í Arctic Adventures eftir kaupin. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

„Fyrirtækin hafa bæði notið mikillar velgengni síðustu ár en með kaupunum skapast tækifæri til að samnýta kerfi beggja fyrirtækja og byggja á styrkleikum hvors félags fyrir sig.   Með aukinni samvinnu fyrirtækjanna skapast veruleg samlegðaráhrif, sem gera fyrirtækjunum enn betur kleift að takast á við þær breytingar sem eiga sér stað í íslenskri ferðaþjónustu,“ segir Jón Þór Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arctic Adventures og dótturfélaga.

35 missa vinnuna

Yfir 300 starfsmenn munu starfa hjá Arctic Adventures og dótturfélögum eftir kaupin en um 35 starfsmönnum verður sagt upp störfum í tengslum við þau. Góður vöxtur er enn í ferðaþjónustu á Íslandi og eftirspurn eftir starfsfólki er mikil og verði ytri aðstæður greininni hagstæðar næstu misserin er ljóst að starfsfólki Arctic Adventures muni fjölga enn.

Ákveðið hefur verið að Straumhvarf, dótturfélag Arctic Adventures, muni frá og með 1. október 2017 sjá um framkvæmd allra ferða Extreme Iceland. Extreme Iceland mun áfram leggja áherslu á sölu- og markaðssetningu undir sínum merkjum.  Verður fjárfesting í netmarkaðssetningu Extreme Iceland aukin á næstunni enda líta fyrirtækin á netið sem sinn mikilvægasta auglýsingamiðil.

„Fyrirtækin hafa verið leiðandi á sínu sviði í afþreyingarhluta ferðaþjónustu og með kaupunum styrkist sú staða enn frekar.  Forsvarsmenn beggja fyrirtækja sáu tækifæri til hagræðingar og um leið styrkingar á þessum markaði en framundan eru fjölmörg sóknarfæri í spennandi atvinnugrein,“ segir Jón Þór. Fyrirtækjaráðgjöf Virðingar var ráðgjafi Extreme Iceland í viðskiptunum.