Heilt yfir var rekstur stærstu útgerðarfyrirtækjanna ekki mikið arðbærari árið 2012 en árið á undan. Hagnaður þeirra er svipaður frá ári til árs og veltan eykst lítillega. Töluverðar breytingar hafa þó orðið á efnahagsreikningnum, eignir hafa aukist meira en skuldir og eiginfjárstaðan því batnað. Þá vekur athygli að tekjuskattgreiðslur fyrir árið 2012 voru mun meiri en fyrir árið 2011, en það skýrist m.a. vegna þess að útgerðarfyrirtækin hafa verið að klára uppsafnað skattalegt tap sem varð til á árunum eftir hrun.

Viðskiptablaðið skoðaði ársreikninga 20 stærstu útgerðarfélaganna miðað við aflahlutdeild, en samanburður á milli ára er þó ekki fullkominn vegna þess að þrjú fyrirtæki hafa ekki skilað ársreikningi fyrir árið 2012. Það eru Vinnslustöðin, Skinney-Þinganes og Vísir. Í heildarsamanburði eru þessi þrjú fyrirtæki því tekin til hliðar. Þá skila tvö félög í eigu Samherja aðeins samandregnum ársreikningi, en það eru Samherji Ísland og Útgerðarfélag Akureyringa.

Veltutölur fyrir þessi félög liggja því ekki fyrir fyrir árin 2011 og 2012. Hagnaður fyrirtækjanna sautján sem skilað hafa ársreikningum fyrir árið 2012 nam 32,4 milljörðum króna, en hagnaður fyrirtækjanna árið 2011 nam 32,8 milljörðum.

Áhugavert er að þegar samanlagður hagnaður allra fyrirtækjanna tuttugu árið 2011 er skoðaður hreyfist hagnaðartalan lítið og er samtalan 32,9 milljarðar. Er það vegna þess að Vinnslustöðin og Skinney-Þinganes skiluðu samtals um fjögurra milljarða króna hagnaði á meðan tap Vísis árið 2011 nam um fjórum milljörðum króna. Hafi rekstur þessara þriggja fyrirtækja verið í samræmi við þróunina á milli ára hjá hinum sautján má því ekki gera ráð fyrir því að heildarhagnaður stærstu útgerðarfyrirtækjanna hafi aukist milli ára.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .