*

þriðjudagur, 24. október 2017
Erlent 19. júní 2017 15:56

Argentína gefur út 100 ára skuldabréf

Landið sem hefur átta sinnum orðið fyrir greiðslufalli, hefur hafið nýtt skuldabréfaútboð.

Ritstjórn
epa

Argentínska ríkið hóf í dag sölu á skuldabréfum sem eru á gjalddaga eftir hundrað ár eða árið 2107. Samkvæmt frétt Financial Times er skuldabréfaútgáfan nýjasta skrefið í endurreisn argentínska efnahagskerfisins eftir að gjaldeyrishöftum var aflétt fyrir tveimur árum síðan. Argentínsk stjórnvöld hafa staðið í deilum við fjárfesta í yfir áratug eftir síðasta greiðslufall landsins árið 2001. 

Viðskipti með skuldabréfin hófust í dag og er ávöxtunarkrafa bréfanna 8,25% sem er tveimur prósentustigum hærra en í á ríkisskuldabréfum landsins sem eru á gjalddaga árið 2046.

Frá því að Argentína fékk sjálfstæði frá Spáni árið 1816 hefur landið átta sinnum orðið fyrir greiðslufalli á ríkisskuldum sínum. Nú síðast árið 2001 þegar stjórnvöld í landinu gátu ekki greitt 100 milljarða skuld ríkisins sem var á þeim tíma stærsta greiðslufall sögunnar.