Þann 1. júlí síðastliðinn tók Ari Edwald við stjórnartaumnum hjá Mjólkursamsölunni, einum stærsta matvælaframleiðanda landsins með um 25 milljarða króna veltu á síðasta ári. Hann segir að eftir að tilkynnt var opinberlega að þáverandi forstjóri MS hafi ákveðið að láta af störfum hafi hann farið að íhuga að sækja um, auk þess sem einhverjir hafi nefnt við hann hvort hann væri ekki rétti maðurinn.

"Það voru nú einhverjir tugir umsækjenda sem var úr að velja, og mikið ferli sem ráðningarskrifstofa sá um, sem endaði auðvitað fyrir stjórn félagsins og þetta var niðurstaðan. Ég vona að þeir þurfi ekki að sjá mikið eftir því,“ segir Ari léttur í bragði.

Þröngt litið á málið

Íslenska landbúnaðarkerfið verður fyrir margvíslegri gagnrýni í opinberri umræðu. Það er meðal annars sagt hygla sérhagsmunum og vera kostnaðarsamt, bæði fyrir neytendur og bændur. Spurður um það upp að hnvaða marki Ari er sammála þessari gagnrýni segist hann vera sammála því að alltaf þurfi að gera betur og að í kerfinu þurfi að vera hvatar til hagræðingar.

„Ég held hins vegar að það sé ansi þröngt litið á málið þegar menn setja fram það sem ég kalla Excel-æfingar um það að það væri hagkvæmara að leggja niður landbúnað og flytja inn mjólkurvörur erlendis frá, að þá spöruðust þetta margir milljarðar. Ég held ekki að þessir útreikningar standist almennt. Í fyrsta lagi líta þeir mjög þröngt á málið yfir höfuð, en svo held ég að þeir standist ekki,“ segir Ari.

„Það er almennt ekki til neitt heimsmarkaðsverð á mjólkurvörum nema bara á örfáum afurðum, mjólkur- eða undanrennudufti og smjöri. En hvaðan ætla menn að fá þær mjólkurvörur sem þeir flytja hér inn og í samvinnu við hvaða fyrirtæki? Ég sé það til dæmis þegar við erum að vinna í þessum skyrútflutningi og í viðskiptum með skyr í mismunandi löndum, að fyrirtæki eins og Arla selur ekki mjólkurvörurnar á sama verði í mismunandi löndum, þótt það séu sömu vörur frá sama fyrirtæki. Skyrdollan frá þeim er 40% dýrari í Bretlandi en Þýskalandi og enn dýrari í Finnlandi þegar þeir koma þangað inn.“

Áhrif niðurfellingar tolla yrðu mjög mikil

Ari segir að ekki sé hægt að gefa sér að mjólkurverð á Íslandi væri á verði sem búið væri að finna á einum eða tveimur vörutegundum á heimsmarkaði, auk þess sem miklar sveiflur séu í þeim verðum. Hann spyr hvort skattaspor mjólkurframleiðslunnar hafi verið kortlagt og segir að erfitt sé að meta áhrif mjólkurframleiðslu á ferðaþjónustuna.

Það að fella niður tolla á t.d. mjólkurafurðir, jafngildir það því að mjólkurframleiðsla hér á landi myndi hætta?

„Ef það væri gert einhliða og hratt, þá er enginn vafi á því að að áhrifin yrðu mjög mikil. Þær framleiðsluvörur sem fela í sér mesta þéttingu á vörunni, minnkun á umfangi og lengri geymslutíma, eru þær sem eiga mjög litla möguleika. Það er þá til dæmis ostur, og það er hátt í helmingur af allri mjólkurframleiðslu á Íslandi seld sem ostur,“ segir Ari.

Ítarlegt viðtal við Ara Edwald er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .