*

laugardagur, 20. apríl 2019
Innlent 27. apríl 2018 11:07

Ari og Samkeppniseftirlitið takast á

Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar, skaut föstum skotum á Samkeppniseftirlitið í vikunni og nú hefur það svarað.

Ritstjórn
Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar, á fundi Viðskiptaráðs um samkeppnismál.
Þröstur Njálsson

Samkeppniseftirlitið hefur á vef sínum birt svör við harðri gagnrýni Ara Edwald, forstjóra Mjólkursamsölunnar, sem hann setti fram á fundi Viðskiptaráðs Íslands þar sem kynntar voru leiðbeiningar um samkeppnisreglur fyrir fyrirtæki undir nafninu Hollráð um heilbrigða samkeppni. 

Ari hafði sagt á fundinum að fyrirtæki óttuðust mörg hver Samkeppniseftirlitið en hann væri enn svo vitlaus að þora að gagnrýna eftirlitið. Hann furðaði sig á vinnubrögðum eftirlitsins hvað varðar skilgreiningu á mörkuðum og þá hverjir ættu í samkeppni. Hann vísaði í reynslu sinni af Samkeppniseftirlitinu þegar hann var forstjóri 365 og sagði eftirlitið hafa litið svo á að RÚV væri ekki í samkeppni við Stöð 2. Að sama skapi hafi eftirlitið aldrei talið að Netflix keppti við Stöð 2 sem væri þó augljóslega raunin. 

Samkeppniseftirlitið telur Ara ekki fara rétt með og vísar til nýlegrar ákvörðunar um samruna Fjarskipta, móðurfélags Vodafone, og 365 miðla. Í þeirri ákvörðun kemur fram að eftirlitið telur RÚV og Stöð 2 samkeppnisaðila að ýmsu leyti. Þá er einnig vísað til þess að í umræddri ákvörðun hafi verið fjallað um hlutdeild Netflix á íslenskum sjónvarpsmarkaði. Þar hafi bæði verið reifuð sjónarmið með og á móti því að Netflix teldist á sama markaði og hefðbundið áskriftarsjónvarp en eftirlitið taldi ekki nauðsynlegt fyrir niðurstöðu málsins að skera endanlega úr um það. Þess í stað hafi eftirlitið tekið veltu streymisveitna með í útreikningi á markaðshlutdeild í málinu og látið samrunaaðila njóta vafans. Umrædd ákvörðun er þó birt eftir að forstjóratíð Ara hjá 365 lauk. 

Á fundinum vék Ari máli sínu einnig að samruna Haga og Lyfju sem Samkeppniseftirlitið ógilti. Sagði hann með öllu óskiljanlegt að við mat eftirlitsins á samkeppni á smásölumarkaði hefði verið litið fram hjá verslun Fríhafnarinnar sem sé afar sterk á markaðnum. Samkeppniseftirlitið svarar þessum orðum Ara á þá leið að við vinnslu á ákvörðun um samruna Haga og Lyfju hafi verið rannsakað hvort Fríverslunin á Keflavíkurflugvelli og á netinu teldist hluti af mörkuðum málsins. Niðurstöður þeirrar rannsóknar hafi eindregið gefið til kynna að verslun í Fríhöfninni væri ekki hluti af markaði málsins þótt hún veitti innlendri verslun ákveðið samkeppnislegt aðhald. 

Þá sagði hann einnig að afstaða forstjóra Samkeppniseftirlitsins til þess hvernig samkeppnisaðilar ættu að hegða sér vera furðulega. Vísaði Ari þar til ræðu forstjóra Samkeppniseftirlitsins á fundi SA um samkeppnismál í október 2012 sem voru svohljóðandi: „Mér varð talsvert hugsað til þessa í sumar þegar ég fékk tölvupóst frá lögmanni hér í bæ. Til hans hafði leitað stjórnandi fyrirtækis sem á ferðalagi sínu um landið hafði áttað sig á því, þegar komið var í náttstað, að þar sat í fleti forstjóri aðal keppinautarins. Ferðalangnum okkar varð verulega órótt við þetta og hafði hið snarasta sambandi við lögmann sinn. Hann íhugaði alvarlega að rífa sig upp, seint um kvöld með fjölskyldu sína, og finna sér annan samastað. Úr varð að lögmaðurinn skyldi senda Samkeppniseftirlitinu þegar í stað tilkynningu um þetta óheppilega atvik.

Þarna var hárrétt brugðist við. Athyglisvert er hins vegar að sá sem átti í hlut var af erlendu bergi brotin. Þetta er raunar í fyrsta og eina skiptið sem Samkeppniseftirlitið veit til þess að keppinautar hafi rekist saman í veiðitúr, golfferðalagi eða fjallaferð hér á landi. Ætli íslenskur stjórnandi, sem lenda myndi í sömu aðstöðu, myndi bregðast eins við?“

 Ari sagðist algerlega gáttaður á þessari afstöðu og að hann hafi hugsað með sér að það hefði verið gott að maðurinn hefði ekki verið í flugvél, því þá hefði hann orðið að kasta sér út. Taldi hann engin samkeppnisleg markmið geta réttlætt þá ógeðfelldu breytingu á íslensku samfélagi að heiðarlegt fólk þurfi að óttast það að rekast hvert á annað í afmælum eða skíðabrekkum og sé skjálfandi á beinunum yfir því að það þurfi að tilkynna atvikið til einhverrar opinberrar stofnunar. Það hefði verið reynt í Austur-Þýskalandi á 20. öldinni og hann teldi fá vilja fylgja því fordæmi.

Í svari Samkeppniseftirlitsins segir að þar hafi Ari haldið því ranglega fram að eftirlitið, eða forstjóri þess, hafi gert kröfu um að tilkynnt sé um þau atvik þegar samkeppnisaðilar hittast á förnum vegi. 

Í niðurlagi svars eftirlitsins segir ennfremur. „Þá er látið að því liggja að stjórnendur fyrirtækja óttist samskipti við Samkeppniseftirlitið, þar á meðal hefndaraðgerðir af þess hálfu. Er sú lýsing ekki í samræmi við reynslu Samkeppniseftirlitsins sjálfs af samskiptum við fyrirtæki í landinu. Samkeppniseftirlitið hefur átt góð samskipti við fyrirtæki og kappkostar að svo verði áfram.“

Viðskiptablaðið hefur birt myndir af fundi Viðskiptaráðs um samkeppnismál þar sem Ari flutti ræðuna en þær má skoða hér

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim