*

föstudagur, 20. október 2017
Innlent 20. ágúst 2012 17:09

Arion banki: Enginn aftökulisti til

Upplýsingafulltrúi Arion banka segir ásakanir Víglundar Þorsteinssonar ekki standast. Enginn aftökulisti sé til.

Hallgrímur Oddsson
Víglundur Þorsteinsson sagði á blaðamannafundi í dag að B.M. Vallá hafi verið á aftökulista Arion banka.

Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingafulltrúi Arion banka, segir að ekki sé til neinn „aftökulisti“ innan bankans. Allt tal um slíkt sé fráleitt. Markmið bankans sé að hámarka endurheimtur og það sé hagur hans að hjálpa þeim fyrirtækjum sem eru rekstrarhæf. Það þjóni ekki hagsmunum bankans að ganga á fyrirtæki sem geta staðið í skilum. 

Víglundur Þorsteinsson, fyrrum stjórnarformaður B.M. Vallá, hélt blaðamannafund í dag þar sem hann sakaði Arion banka um að mismuna skuldunautum sínum. Hann sagði að B.M. Vallá hafi verið á „aftökulista“ yfir þá sem ganga skyldi á til ávinnings fyrir skilanefnd Kaupþings. Fyrir það fengi Arion banki þóknun sem næmi 25% af endurheimtum.

„Í langflestum tilvikum hefur fjárhagsleg endurskipulagning farið fram í samvinnu við eigendur félaganna. Í nokkrum tilvikum var ekki hjá því komist að bankinn tæki félag yfir eða það færi í þrot eins og raunin varð í tilfelli BM Vallá hf.,“ segir Haraldur Guðni.  

Haraldur Guðni segir að með listanum vísi Víglundur líklegast til lista yfir 40 stærstu skuldara bankans við yfirtöku Arion banka á eignum gamla bankans. Á þeim lista hafi verið bæði góð og slæm lán en Haraldur tekur fram að hann geti ekki tjáð sig um málefni einstakra fyrirtækja. Listinn sé hins vegar á engan hátt „aftökulisti“, aðeins eignir sem stöðu að baki skuld gamla bankans. 

„Hvað varðar lista yfir fyrirtæki þá var það þannig að við stofnun Arion banka undir árslok 2008 þegar tilteknar eignir og skuldir voru yfirfærðar frá Kaupþingi yfir til bankans var ágreiningur um virði eignanna. Ágreiningurinn endurspeglaði þá miklu óvissu sem á þessum tíma var ríkjandi um stöðu fjölmargra íslenskra fyrirtækja.  Til að leysa ágreininginn var samið um að eftir flutning eignanna til Arion banka myndi Kaupþing skulda Arion banka.

Jafnframt var kveðið á um það í samkomulaginu að ef virði 40 stærstu fyrirtækjalána sem yfirfærð voru ykist á næstu árum þá myndi ákveðið hlutfall þeirrar virðisaukningar koma til lækkunar á þessari skuld Arion banka. Þessi 40 fyrirtækjalán voru allt frá því að vera mjög góð lán sem innheimtast að fullu til lána þar sem líkur á endurheimtum voru takmarkaðar. Hvort verið er að vísa til þessa lista veit ég ekki en hagur Arion banka hvað varðar þessi fyrirtæki, sem og öll önnur fyrirtæki sem eru í viðskiptum við bankann, felst einfaldlega í framtíðarvelgengni þeirra,“ segir hann í skriflegu svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins um málið.

Í yfirlýsingu Víglundar er vísað í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna frá marsmánuði 2011, þar sem kemur fram að Kaupþing skuldaði nýja bankanum 38 milljarða króna. „Á bls. 50-58 í skýrslunni er því lýst hvernig íslenska ríkið afhenti skilanefnd Kaupþings, sem fulltrúa erlendra kröfuhafa, nýja bankann og gaf þeim veiðileyfi á skuldara til að láta þá standa undir skuldum skilanefndarinnar. Til að ná árangri er ljóst að ekkert jafnræði var gagnvart skuldurum heldur var sótt að þeim sem fengur var í, einstaklingum jafnt sem fyrirtækjum," segir í yfirlýsingunni.