Hagnaður Arion banka á fyrstu níu mánuðum ársins 2015 var 25,4 milljarðar króna, miðað við 22,6 milljarða á sama tímabili 2014.

Sérstaklega markast afkoma bankans af einskiptisliðum á borð við sölu bankans á hlutum í fasteignafélaginu Reitum og Símanum hf., sem og í alþjóðlega drykkjaframleiðandanum Refresco Gerber.

Hagnaður af reglulegri starfsemi bankans nam 13,5 milljörðum króna, sem er 2,1 milljarði meira en á síðasta ári miðað við sama tímabil. Heildareignir námu 1.009,5 milljörðum króna samanborið við 933,7 milljarða króna í árslok 2014.

Eiginfjárhlutfall bankans var 23,5%, og lækkar úr 26,3% milli ára. Eigið fé bankans var 174,8 milljarðar króna en nam 162,2 milljörðum í lok árs 2014.

Arðsemi eigin fjár var 19,8%, en hún hefur lækkað um 0,1% milli ára. Af reglulegri starfsemi nam arðsemin 11,2% á tímabilinu, sem er hækkun milli ára um 1,1%.

Hreinar vaxtatekjur námu 20,3 milljörðum króna, samanborið við þá 18,3 milljarða á sama tíma árið 2014.