*

fimmtudagur, 17. janúar 2019
Innlent 15. júní 2015 11:43

Arion banki hlýtur jafnlaunavottun

Arion banki er fyrsti banki á Íslandi til að hljóta jafnlaunavottun VR.

Ritstjórn
Höfuðstöðvar Arion banka.
Eva Björk Ægisdóttir

Arion banki hefur fengið Jafnlaunavottun VR og er þar með fyrstur íslenskra banka til að hljóta þessa vottun. Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu Arion banka og VR.

Í tilkynningunni kemur fram að um sé að ræða staðfestingu á því að búið sé að kerfisbinda launaákvarðanir og að bankinn sé með jafnlaunakerfi samkvæmt kröfum ÍST 85:2012. Kerfið muni tryggja að starfsfólki sem vinnur sömu eða jafnverðmæt störf sé ekki mismunað í launum.

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, segir að bankinn sé stoltur af þeim árangri sem náðst hefur í jafnréttismálum. „Jafnréttismálin snerta okkur öll og það skiptir gríðarlega miklu máli að allir, bæði konur og karlar, sitji við sama borð þegar kemur að launaákvörðunum. Það að innleiða staðlað gæðakerfi hjálpar okkur að viðhalda þeim árangri sem við höfum þegar náð og jafnframt gera enn betur,“ segir Höskuldur í tilkynningunni.