Arion banki tók yfir alla bankaþjónustu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á miðnætti í dag. Bankinn mun sinna þjónustu við farþega í flugstöðinni og verður höfuðáhersla á gjaldeyrisþjónustu og þjónustu vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts, að því er fram kemur í tilkynningu frá bankanum.

Landsbankinn hefur lengi starfrækt afgreiðslu í flugstöðinni, en að því er fram kemur í tilkynningunni réði Arion banki alla þá starfsmenn Landsbankans í Leifsstöð sem sóttust eftir því að sinna áfram þjónustu í flugstöðinni.

Bankinn verður með þrjár nýjar afgreiðslur í Leifsstöð og verða 13 hraðbankar staðsettir víðsvegar um flugstöðvarbygginguna. Um 60 manns munu starfa hjá Arion banka í Leifsstöð yfir háannatímann, en þá mun bankinn veita þjónustu allan sólarhringinn.

„Þjónustan verður hins vegar fyrst um sinn veitt í bráðabirgðaraðstöðu á tveimur stöðum í flugstöðinni á meðan afgreiðslur bankans verða settar upp. Viðskiptavinir eru beðnir velvirðingar á þessu millibilsástandi þar til nýjar afgreiðslur verða opnaðar 8. maí næstkomandi,“ segir í tilkynningu Arion banka.