*

fimmtudagur, 25. apríl 2019
Innlent 14. nóvember 2017 21:17

Arion banki rekinn með tapi

Arion banki tapaði 113 milljónum króna á síðasta ársfjórðungi vegna 3,7 milljarða afskrifta vegna United Silicon.

Ingvar Haraldsson
Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, telur undirbúning að lánum til United Silicon hafa verið góðan.
Haraldur Guðjónsson

Arion banki var rekinn með 113 milljón króna tapi á síðasta ársfjórðungi, sem nær yfir júlí, ágúst og september. Ástæða taprekstursins er afskrifta af lánum, kröfum og öðrum eignum sem tengjast United Silicon upp á 3,7 milljarða króna. Alls námu afskriftir Arion banka vegna United Silicon 4,8 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins.

Hefði ekki komið til afskrifta í tengslum við United Silicon hefði hagnaður félagsins numið 2,6 milljörðum króna samkvæmt uppgjörstilkynningu frá Arion banka. Til samanburðar var hagnaður Arion banka á þriðja ársfjórðungi síðasta árs 7,5 milljarðar króna.

Í uppgjörinu er haft eftir Höskuldi H. Ólafssyni, bankastjóra Arion banka, að bankinn hafi fært niður lán til félagsins að hluta og hlutabréfaeign sína að fullu. „Nú liggur jafnframt fyrir að verksmiðjan var ekki fullkláruð þegar hún var gangsett. Arion banki hefur því þurft að koma að starfsemi félagsins í æ ríkari mæli og er í dag stærsti hluthafi þess.“

Þá sé áhættutaka með viðskiptavinum kjarninn í starfsemi fjármálafyrirtækja sem yfirleitt gangi vel. Bankinn hafi farið yfir aðdragandann að þátttöku bankans í uppbyggingu kísilvers United Silicon. „Niðurstaðan er sú að greiningarvinnan sem unnin var og lá til grundvallar ákvörðunar um að lána í verkefnið hafi í öllum aðalatriðum verið góð. Þar var stuðst við áætlanir félagsins, en að gerð þeirra komu bæði innlendir og reynslumiklir erlendir aðilar. Einnig var stuðst við álit og úttektir utanaðkomandi sérfræðinga. Málið átti sér langan aðdraganda og fyrir lágu öll leyfi og samningar um uppbyggingu verksmiðjunnar, orkukaup, helstu aðföng og sölu afurða. Engu að síður er ljóst að draga þarf lærdóm af því hvernig til hefur tekist og það munum við gera,“ er haft eftir Höskuldi.

Arðsemi eigin fjár lækkar um helming

Alls nemur hagnaður bankans á fyrstu níu mánuðum ársins 10,4 milljörðum króna miðað við 17,3 milljarða króna hagnað fyrstu níu mánuðina árið 2016. Arðsemi eigin fjár fyrstu níu mánuði ársins var 6,3% miðað við 11,2% á sama tímabili fyrir ári.

Heildareignir námu 1.145 milljörðum króna í lok september samanborið við 1.036 milljarða króna í árslok 2016 og eigið fé hluthafa bankans nam 221,5 milljarði króna í lok september, samanborið við 211,2 milljarða króna í árslok 2016. Eiginfjárhlutfall bankans var 27,1% í lok september og er óbreytt frá árslokum 2016.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim