RB og Arion banki skrifuðu í dag undir samning um innleiðingu á nýjum grunnkerfum bankans.  Um er að ræða kerfi frá Sopra Banking Software og lausnir frá RB sem reknar eru sameiginlega fyrir íslenska bankakerfið. Sopra, sem er eitt stærsta hugbúnaðarfyrirtæki Evrópu með yfir 40 ára reynslu, er samstarfsaðili yfir 800 fyrirtækja í 70 löndum og hefur nú þegar tekið þátt í tveimur innleiðingum á Íslandi.

Um er að ræða  verkefni þar sem 40 ára gömlum sérhönnuðum innlána- og greiðslukerfum RB verður skipt út fyrir staðlaða alþjóðlega hugbúnaðarlausn. Markmið endurnýjunarinnar er að auka hagræði og draga úr kostnaði við rekstur upplýsingakerfa bankans og styðja við frekari vöruþróun. Kerfin munu taka mið af breytingum á evrópsku regluverki og þannig einfalda bankanum að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru.

Verkefnið er mjög umfangsmikið og koma á annað hundrað starfsmenn að því frá Arion banka, RB og Sopra. Gert er ráð fyrir að gangsetning verði á haustmánuðum 2020.

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka:

„Grunnkerfi bankans skipta miklu fyrir alla okkar starfsemi og þjónustu. Rekstur þeirra er jafnframt stór kostnaðarliður í starfsemi bankans og með því að skipta út eldri kerfum fyrir nýrri sveigjanlegri kerfi munum við ná fram auknu hagræði. Nýtt kerfi mun einnig auðvelda okkur að þróa áfram okkar þjónustu og halda áfram að kynna nýjar starfrænar lausnir sem einfalda viðskiptavinum okkar að sinna sínum fjármálum.“

Friðrik Þór Snorrason, forstjóri RB:

„Samningurinn við Arion er mikilvæg staðfesting þess að RB sé á réttri braut í breytingum á innviðum íslenska fjármálakerfisins. Markmið okkar er að auka hagkvæmni og skilvirkni á fjármálamarkaði og styðja Arion banka við að veita hágæðaþjónustu til sinna viðskiptavina.“