*

fimmtudagur, 17. janúar 2019
Innlent 13. júlí 2018 14:15

Arion banki valinn besti fjárfestingarbankinn

Alþjóðlega fjármálatímaritið Euromoney hefur valið Arion banka besta fjárfestingarbankann á Íslandi árið 2018.

Ritstjórn
Lýður Þór Þorgeirsson, framkvæmdastjóri fjárfestingabankasviðs Arion banka.
Haraldur Guðjónsson

Alþjóðlega fjármálatímaritið Euromoney hefur valið Arion banka besta fjárfestingarbankann á Íslandi árið 2018. Niðurstaðan var tilkynnt við hátíðlega athöfn í London fyrr í vikunni. 

Við val á besta fjárfestingarbankanum horfði dómnefnd tímaritsins meðal annars á árangur og reynslu fjárfestingarbankasviðs Arion banka við að veita viðskiptavinum sínum fjölbreytta fjárfestingarbankaþjónustu á borð við fyrirtækjaráðgjöf, miðlun verðbréfa og gjaldeyris auk þess að bjóða viðskiptavinum upp á aðgang að sjálfstæðu greiningarefni frá virtri greiningardeild. 

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Euromoney veitir Arion banka verðlaun því að mati tímaritsins var Arion banki besti bankinn á Íslandi í fyrra og besti fjárfestingarbankinn árið 2016. 

„Starfsfólk fjárfestingarbanka Arion banka er öflugt og reynslumikið og hefur verið leiðandi í markaðsviðskiptum, fyrirtækjaráðgjöf og í útgáfu á greiningarefni um íslenskt efnahagslíf og skráð fyrirtæki. Á síðasta ári vann fyrirtækjaráðgjöf bankans m.a. tvö stærstu fyrirtækjaviðskipti hér á landi og gegndi leiðandi hlutverki við farsæla skráningu bankans sjálfs í kauphöll. Þá hefur bankinn verið með hæstu markaðshlutdeild í hlutabréfaviðskiptum í Kauphöll Íslands síðustu árin ásamt því að vera með sterka stöðu á gjaldeyrismarkaði og í skuldabréfaútgáfu. Við finnum að viðskiptavinir bankans kunna að meta fagleg vinnubrögð og að vera í traustum höndum með sín viðskipti og er ég því ánægður með viðurkenninguna sem fjárfestingarbankasviði Arion banka er sýnd," segir Lýður Þór Þorgeirsson, framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs Arion banka.