Viðræður standa nú yfir milli BankNordik og Arion banka um kaup hins síðarnefnda á 49% hlut í tryggingafélaginu Verði, að því er heimildir Viðskiptablaðsins herma. Friðrik Jóhannsson hjá Icora Partners, sem sér um sölu félagsins, segir það eitt í samtali við Viðskiptablaðið að ekki sé búið að ganga frá sölu félagsins, en að öðru leyti geti hann ekki tjáð sig um málið.

Greint var frá því í júní að BankNordik hyggðist selja félagið að öllu leyti, en hann á 100% hlutafjár í Verði. Hins vegar hafi bankinn keypt 51% hlut í tryggingafélaginu í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans og sé sú eign því bundin fram í júní 2017.

Velta Varðar nam í fyrra 5,3 milljörðum króna, en voru rétt rúmir fimm milljarðar árið á undan. Hagnaður félagsins nam 324,3 milljónum króna í fyrra, en var 475,8 milljónir árið 2013. Munurinn á milli ára skýrist að stærstum hluta vegna hærri tjónakostnaðar á árinu 2014, en hann nam þá tæpum 3,9 milljörðum króna, en var tæpir 3,5 milljarðar árið 2013.