*

mánudagur, 20. ágúst 2018
Innlent 29. september 2017 09:48

Arion fjármagnar Brúarvirkjun

Arion banki hefur samið við HS Orku um heildarfjármögnun félagsins og framtíðarvirkjunarframkvæmda.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Nýverið skrifuðu Arion banki og HS Orka undir samning sem snýr að heildarfjármögnun HS Orku. Um er að ræða lánsfjársamning sem meðal annars mun nýtast til uppbyggingar Brúarvirkjunar í Biskupstungum sem er allt að 9,9 MW rennslisvirkjun. Auk þess mun fjármögnunin nýtast til frekari þróunar verkefna sem tengjast Reykjanesvirkjun og uppgreiðslu eldri lána félagsins.

Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku segist ánægður með að hefja samstarf með Arion banka á þessum tímapunkti. „Það eru mörg spennandi verkefni framundan hjá HS Orku og traustir samstarfsaðilar sem hafa skilning á því umhverfi sem við vinnum í eru afar mikilvægir,“ segir Ásgeir. „Við vonumst til þess að þetta samstarf muni vera til hagsbóta fyrir bæði fyrirtækin til lengri tíma.“

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka segir: „HS Orka er rótgróið og leiðandi félag hér á landi þegar kemur að framleiðslu á endurnýjanlegri orku. Það er okkur hjá Arion banka mikil ánægja að ganga til samstarfs við félagið með afgerandi hætti og taka að okkur fjármögnun þeirra verkefna sem eru framundan hjá félaginu.“

Um HS Orku

HS Orka er þriðja stærsta raforkufyrirtæki landsins og það eina sem er ekki í opinberri eigu. Fyrirtækið var stofnað í lok árs 1974 og rekur í dag tvær jarðvarmavirkjanir, í Svartsengi og á Reykjanesi.