Hagnaður samstæðu Arion banka á þriðja ársfjórðungi 2018 nam 1,1 milljarði króna samanborið við 0,1 milljarðs króna tap á sama tímabili 2017. Rekstrartekjur námu 13,7 milljörðum á fjórðungnum og jukust um 18% milli ára.

Heildareignir í lok fjórðungsins námu 1.220 milljörðum króna og jukust um 6% frá áramótum, og eigið fé nam 200 milljörðum og dróst saman um 11% á sama tímabili. Arðsemi eigin fjár var 2,3%. Þetta kemur fram í fjórðungsuppgjöri bankans.

Niðurfærslur tengdar Primera eru sagðar setja svip sinn á afkomu fjórðungsins og ársins, en flugfélagið fór í gjaldþrot í upphafi október.

Þá er sagt frá því að ákvörðun hafi verið tekin um sölu á kortafyrirtækinu Valitor, að hluta eða í heild, og verður „alþjóðlegur fjárfestingarbanki“ fenginn til aðstoðar við sölu félagsins.

Hagnaður samstæðunnar á fyrstu níu mánuðum ársins 2018 nam 6,2 milljörðum króna og arðsemi var 3,9% samanborið við 10,4 milljarða króna hagnað og 6,3% arðsemi á sama tímabili 2017. Bankinn greiddi 10 milljarða króna í arð í lok september.

Eiginfjárhlutfall bankans var 21,7% í lok september en var 24,0% í árslok 2017. Hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 nam 21,6% í lok september, samanborið við 23,6% í árslok 2017.

„Afkoma þriðja ársfjórðungs var undir væntingum og hefur gjaldþrot Primera Air þar mest áhrif en bankinn þurfti að færa niður eignir vegna þess. Undirliggjandi rekstur bankans er hins vegar áfram sterkur. Við sjáum góðan vöxt á milli ára í bæði þóknanatekjum og tekjum af tryggingastarfsemi. Á sama tíma helst vaxtamunur stöðugur í umhverfi þar sem samkeppni er mikil. Ljóst er þó að bankinn mun á næstunni frekar horfa til arðsemi af lánasafni sínu og þá jafnvel á kostnað lánavaxtar.

Eiginfjárstaða bankans er sterk þrátt fyrir umtalsverðar arðgreiðslur og kaup á eigin bréfum á árinu en bankinn hefur greitt út rúma 33 milljarða á árinu 2018 vegna þessa. Síðast í september greiddi Arion banki út 10 milljarða í arð í takt við stefnu bankans um lækkun eiginfjár, en áfram er unnið markvisst að þeim fjárhagslegu markmiðum sem bankinn hefur kynnt t.a.m. varðandi eigið fé, kostnaðarhlutfall og arðsemi,“ er haft eftir Höskuldi H. Ólafssyni, bankastjóra Arion banka.