Hagnaður Arion banka á árinu 2016 nam 21,7 milljörðum króna samanborið við 49,7 milljarða króna árið 2015. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.

Arðsemi eigin fjár var 10,5% á árinu samanborið við 28,1% árið 2015. Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi bankans nam 4,7% samanborið við 8,7% á árinu 2015.

Hagnaður bankans af reglulegri starfsemi nam 9,7 milljörðum króna, samanborið við 14,1 milljarð árið 2015.

Heildareignir hækkuðu lítillega milli ára og fóru úr 1.011 milljörðum árið 2015 upp í 1.036 milljarða árið 2016. Eigið fé hluthafa bankans nam þá 211,2 milljörðum, samanborið við 192,8 milljarða króna í árslok 2015.

Í tilkynningunni segir að bankinn hafi einbeitt sér að því að tryggja góða lausafjárstöðu í aðdraganda afnáms fjármagnshaftanna.

Eiginfjárhlutfallið nemur nú 27,1% en var 24,2% árið 2015.