Greiningardeild Arion banka metur gengi bréfa Marel á 401 krónu á hlut sem er tæplega átta prósentum hærra en gengið stóð í þegar markaðir lokuðu í gær. Fréttablaðið fjallar um verðmatið . Verðmat deildarinnar er óbreytt í evrum talið frá síðasta verðmati í maí, aftur á móti hefur það hækkað um átta prósentustig í krónum talið vegna gengisveikningar krónunnar síðustu tvo mánuði.

Verðmatið var birt í kjölfar þess að Marel birti uppgjör sitt fyrir annan fjórðung ársins. Greiningaraðilar benda á að sala Marels á ársfjórðungnum hafi verið undir væntingum og áætlunum stjórnenda, þó að pöntunum félagsins hafi fjölgað um 18 prósentustig á milli ára hafi pantanir á öðrum fjórðungi verið um sjö prósentustigum færri en á fyrsta ársfjórðungi.

Aftur á móti er bent á að pöntunarstaðan sé sterk sem að þýði að mögulega sé von á talsverðum söluvexti á næstu misserum. Kaup Marels á brasilíska framleiðandanum Sulmaq eins og sér eykur sölu félagsins um 2,5 prósentustig á ári. Enn fremur geri stjórnendur Marels ráð fyrir því að meðalvöxtur tekna verði um tólf prósentustig næstu tíu árin.