Arion banki spáir því að Seðlabanki Íslands tilkynni um óbreytta vexti á peningastefnunefndarfundi 15. nóvember. Meginvextir verði því áfram 4,25% en að mati Greiningardeildar Arion mælir slaknandi aðhald peningastefnunnar helst með óbreyttum vöxtum. Verðbólga hækkaði um 0,47 prósentustig í október og stendur nú í 1,9%.

Þá segir greiningardeildin að aðrir þætti hafi lítið breyst en ekki sé útilokað að vextir lækki. Ennfremur að vaxtalækkunin í október hafi verið í talsverðri mótsögn við fyrri orð nefndarinnar og hafi þess vegna komið flestum á óvart. „Þannig fáum við ekki betur séð en að peningastefnunefnd langi virkilega að lækka vexti,“ segir í greiningunni enda gerir deildin ráð fyrir að vextir geti lækkað um 25 punkta í viðbót á næstunni, mögulega í desember.

Arion banki er því sammála bæði Greiningu Íslandsbanka sem og greiningu Hagfræðideildar Landsbankans sem spá því einnig að stýrivextir haldist óbreyttir á vaxtaákvörðunarfundinum þann 15. nóvember.

Arion banki birti í gær hagspá greiningardeildar en í henni er gert ráð fyrir 4,2% hagvexti í ár en að hann lækki töluvert á milli ára á næsta ári og verði 2,6%.Verði raunin sú að verðbólga haldist við markmið og framleiðsluspenna fjari út verði mögulegt að stýrivextir lækki niður 3,5% á fyrri hluta næsta árs. Þá kallar greiningardeildin eftir því að seðlabankinn beiti framsýnni leiðsögn með skýrari hætti og veltir því upp hvort ekki hefði farið betur á því í október að gefa í skyn að vaxtalækkun væri í pípunum að gefnum ákveðnum forsendum.

Greininguna má finna í heild sinni hér .