Næstkomandi miðvikudag, þann 15. mars, tilkynnir peningastefnunefnd Seðlabankans um vaxtaákvörðun og spáir greiningardeild Arion banka því að stýrivextir verði lækkaðir um 0,25 prósentustig og því verði vextir á bundnum innlánum 4,75%.

Þetta kemur fram í greiningu Arion banka um næstu stýrivaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands sem bankinn birti í dag.

Stöðugleiki á vinnumarkaði hefur áhrif

Telur bankinn að það muni auka bjartsýni nefndarmanna um að verðbólgumarkmið haldist, að kjarasamningar á almennum vinnumarkaði verði ekki teknir upp að sinni.

Þó gerir bankinn ráð fyrir að fremur stíft verði haldið í aðhaldsstig peningastefnunnar en jafnframt að mikil gengisstyrking krónunnar kunni að vera sérstakt áhyggjuefni sem ekki kæmi á óvart að yrði svarað með auknu inngripi á gjaldeyrismarkaði.

Gengi krónunnar sé til að mynda um 4% sterkara nú en Seðlabankinn hafi gert ráð fyrir að það yrði að meðaltali á árinu.

Í skýrslu greiningardeildarinnar segja þeir að ef gengið myndi styrkjast um 4% til viðbótar fram í júlí, þá megi áætla að verðbólgan fari niður í neðri vikmörk verðbólgumarkmiðsins.

Telur greiningardeild bankans að peningastefnunefnd Seðlabankans muni ákveða að lækka vextina með hliðsjón af þessari styrkingu, og segja þeir mögulegt að vextir verði lækkaðir aftur í vor ef gengið styrkist meira næstu vikur.

Hagvöxturinn umfram flestar spár

Bendir bankinn á að hagvöxturinn á síðasta ári, sem Viðskiptablaðið greindi frá í morgun hafi verið 7,2% á síðasta ári hafi verið umfram flestar spár, en Seðlabankinn hafði spáð því að hann yrði 6,1%.

Telur greiningardeildin að þó þessar tölur gefi til kynna meiri spennu í þjóðarbúskapnum en áður hafi verið talið, sem væru rök fyrir að lækka ekki vexti, þá muni vega þungt á móti því hve hagstæð samsetning hagvaxtarins sé.

Jafnframt reiknar greiningardeildin með því að það muni draga úr framleiðsluspennunni á næstunni.