Vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans verður birt næstkomandi miðvikudag, þann 9. desember. Greiningardeildir Arion banka og Íslandsbanka spá því að peningastefnunefndin ákveði að halda stýrivöxtum óbreyttum.

Þessu spá deildir bankanna vegna þess að verðbólga síðustu mánuði hefur verið verulega undir væntingum Seðlabankans, sem gefi vísbendingu um að minni verðbólguþrýstings sé að vænta en búist var við fyrr á árinu.

Í skýrslu Íslandsbanka segir meðal annars:

„Verður rökstuðningur nefndarinnar fyrir óbreyttum vöxtum væntanlega sá að verðbólgan er enn undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans, sérstaklega þegar horft er framhjá húsnæðislið vísitölu neysluverðs, og virðist ætla að aukast heldur hægar en gert var ráð fyrir í síðustu spá bankans.“

Ekki er þó útilokað að vextir verði hækkaðir. Greiningardeild Arion bendir til að mynda á að

„Af síðustu fundargerð nefndarinnar má ráða að stór ástæða þess að nefndin hækkaði óvænt vexti í nóvember var að „ óbreyttir vextir í of langan tíma gætu sent röng skilaboð um mat nefndarinnar fyrir aukið aðhald til lengri tíma litið “. Það kæmi Greiningardeild á óvart ef slík rök fyrir vaxtahækkun væru notuð nú.

Að ofansögðu er þó mögulegt að vextir verði hækkaðir nú, enda var önnur ástæða þess að vextir voru hækkaðir í nóvember sú að langtímahorfur hefðu ekki breyst og ætla má að mat nefndarinnar á því sé svipað.“

Ein breyta í jöfnunni er svo einkaneysla þjóðarinnar. Hagstofa birtir þjóðhagsreikninga daginn áður en peningastefnunefndin tekur vaxtaákvörðun sína, og ef vöxtur útgjalda - sér í lagi einkaneyslu - verður langt fram yfir spár telur greiningardeild Arion að mögulegt sé að peningastefnunefndin kjósi að hækka stýrivextina um 25 punkta.