Næstkomandi miðvikudag mun vaxtaákvörðun peningastefnunefndar verða kynnt en 77 dagar eru frá síðustu vaxtaákvörðun. Verður þetta fyrsti fundur peningastefnunefndar þar sem nýráðinn aðstoðarseðlabankastjóri, Rannveig Sigurðardóttir, mun verða nefndarmaður en hún tók við þann 1. júlí síðastliðinn.

Fram kemur í Markaðspunktum frá Greiningardeild Arion banka að allar líkur séu á óbreyttum stýrivöxtum, eða 4,25% meginvöxtum. Gangi spár greiningaraðila eftir verður þetta í sjötta sinn sem nefndin ákveður að halda vöxtum óbreyttum en hún breytti síðast vaxtaákvörðun sinni í þann 4. október á síðasta ári þegar hún lækkaði vextina um 0,25%.

„Frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi hefur krónan styrkst eilítið og verðbólgan hækkað úr 2% í 2,7%. Hagkerfið er ennþá í fullu fjöri og ferðamannatölur fyrir júní og júlí sýndu meiri þrautseigju ferðaþjónustunnar en margir höfðu reiknað með. Þingmenn hafa verið í sumarfríi og því lítið gerst í opinberum fjármálum, en forkólfar vinnumarkaðarins hafa haft í nægu að snúast í kringum harða kjarabaráttu ljósmæðra,“ segir í Markaðspunktum greiningardeildarinnar.

Þá bendir greiningardeildin einnig á að aukin umsvif ferðamannaiðnaðarins hafi haft mikil áhrif á krónuna til styrkingar og að innkoma Costco og H&M á markaðinn hafi hert samkeppni og sett þrýsting á innlenda framleiðendur.