Bjarni Bjarnason forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur segir að félagið gæti sparað um 50 milljónir á ári ef það hefði farið sömu leið og Landsvirkjun og stofnað félag á lágskattasvæði.

Árið 2016 hafði Orkuveitan hug á að stofna dótturfélag á bresku eyjunni Guernsey á Ermarsundi, en eyjan er sjálfstætt skattumdæmi og vinsælt meðal fyrirtækja að setja þar upp starfsemi sem nýtir hagstætt skattkerfi eyjarinnar.

Í kjölfar birtingar Panamaskjalanna hætti félagið við stofnun félagsins, meðan Hörður Arnarsson forstjóri Landsvirkjunar sagði í kjölfar gagnrýninnar sem blossaði þegar skjölunum var lekið að stjórnin muni ræða hvort starfsemin yrði flutt aftur heim.

Landsvirkjun hélt sínu félagi

Málið var síðan rætt í stjórn Landsvirkjunar en niðurstaðan var sú að ekki ætti að breyta neinu, en eins og RÚV greinir frá kemur starfsemi dótturfélagsins og nokkur nöfn starfsmanna Landsvirkjunar fyrir í Paradísarskjölunum svokölluðu sem eins og Viðskiptablaðið sagði frá var lekið á sunnudag.

Þar kemur fram að Landsvirkjun heldur enn úti starfsemi dótturfélagsins Icelandic Power Insurance Ltd. á Bermúda, en það var stofnað til að draga úr kostnaði við tryggingar á virkjunum og öðrum stóreignum fyrirtækisins.

Sögðu stjórnendur Landsvirkjunar að á sínum tíma hefði Ríkisendurskoðun, Fjármálaeftirlitið og fjármálaráðuneytið haft allar upplýsingar um fyrirtækið frá upphafi.

Of stórar eignir fyrir íslensk tryggingafélög

Bjarni Bjarnason forstjóri Orkuveitunnar segir sumar eignir félagsins svo stórar að íslensk tryggingafélög geti ekki tryggt þær. „Orkuveitan á umtalsverðar eignir, um 300 milljarða,“ segir Bjarni.

„Þau félög sem eiga svona mikið eignasafn hafa mörg farið þá leið að stofna eigið félag og það er þá erlendis, þar sem skattareglur í lögum eru öðruvísi. Í staðinn fyrir það að greiða þetta til tryggingafélaga erlendis. Okkur reiknaðist til að það væru þá svona 50 milljónir á ári sem við gætum sparað með þessum hætti.“

„Eigum engan rétt á skýringu“

Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarnesbyggð eiga fyrirtækið en stjórn þess samþykkti í febrúar 2015 að stofna félagið á Guernsey, en Bjarni segir að auðvitað geti eigendurnir horft til annarra þátta en rekstrar eins og þegar hætt var við stofnun félagsins.

„Við sem stýrum Orkuveitunni erum náttúrulega alltaf að horfa til reksturs,“ segir Bjarni hins vegar, það er hvernig hægt sé að hagræða og spara. „[A]uðvitað á þann hátt að það sé allt bæði löglegt og siðlegt. Ákveðnar ákvarðanir verða að fara til eigenda. Ef þeir vilja horfa til einhverra annarra þátta, þá er það alfarið þeirra mál og við eigum engan rétt á skýringu á því.“

Rekstrarhagnaðurinn skattlagður að fullu á Íslandi

Spurður hví ekki sé notað íslenskt félag til að halda utan um þennan hluta starfseminnar segir Bjarni að þannig yrði hagkvæmnin að mestu ef ekki öllu leyti farin úr því að stofna sérstakt félag um þennan hluta rekstrarins.

„Það er vegna þess að íslensk lög leyfa það ekki að fé sem safnast upp í félögum af þessum toga, á Íslandi, að það sé ekki skattlagt. Rekstrarhagnaður af þessu félagi, hann yrði skattlagður að fullu á hverju ári,“ segir Bjarni sem játar því að þetta snúist um skattalegt hagræði.

„Sko, það er engum til ógagns. Ríkið fær meira í skatttekjur þegar til lengri tíma er litið heldur en ella, Orkuveitan safnar fé og eigendur Orkuveitunnar sem eru sveitarfélögin og síðan að lokum almenningur, í rauninni kemur þetta öllum betur heldur en það fyrirkomulag sem við höfum í dag.“