*

sunnudagur, 26. maí 2019
Fjölmiðlapistlar 18. nóvember 2018 13:09

Armur langur

„Fjölmiðlar eiga vitaskuld að virða lögin sem aðrir, en trúnaður þeirra er fyrst og fremst við almenning“

Andrés Magnússon
Haraldur Guðjónsson

Hér var í síðustu viku fjallað eilítið um sérkennileg vinnubrögð í Landsrétti vegna tilrauna fjölmiðla til ljósmyndatöku af sakborningi þar. Þau báru vott um djúpstæðan misskilning starfsmanna réttarins á eðli réttarfarsins og hlutverki fjölmiðla.

Það er hins vegar ekkert nýtt að fjölmiðlar vefjist fyrir dómstólum, nú eða að flókin dómsmál geti vafist fyrir fjölmiðlum. Þau eru einatt mjög viðkvæm fyrir hlutaðeigandi, mikið í húfi og framganga fjölmiðla getur stundum orkað tvímælis. Það breytir hins vegar engu um hlutverk þeirra við að segja fréttir og halda almenningi upplýstum. Fjölmiðlar eiga vitaskuld að virða lögin sem aðrir, en trúnaður þeirra er fyrst og fremst við almenning.

***

Í gær voru sagðar fréttir af dómsmálum Júlíusar Vífils Ingvarssonar, fyrrverandi borgarfulltrúa, en lögmaður hans hefur skilað greinargerð til héraðsdóms, þar sem raktar eru margvíslegar málsvarnir vegna ákæru um peningaþvætti á hendur honum. 

Þar sakar hann m.a. einn rannsakanda málsins fyrir að hafa litast af pólitískri óvild í sinn garð, að stjórnmálaþátttaka rannsakandans kunni að hafa haft áhrif á málatilbúnað ákæruvaldsins, að skipuleg aðför ótilgreindra óvildarmanna hafi verið rót málsins, að erfðadeilur hafi blandast þar inn í og að fjölmiðlaumfjöllun, fyrst og fremst í Kastljósi Ríkisútvarpsins, hafi haft áhrif á það.

Júlíus Vífill verður líkt og aðrir sakborningar að hafa svigrúm til þess að færa fram varnir á þann hátt sem hann kýs. Fjölmiðlarýnir ætlar ekki að fjalla um það og treystir dómstólum til þess að taka afstöðu til þess alls. Hins vegar er það umhugsunarefni, að svo virðist sem fjölmiðlaumfjöllun hafi haft veruleg áhrif á gang málsins hjá ríkisskattstjóra. 

Umfjöllun Kastljóss um Panamaskjölin var meðal þess, sem hratt skattrannsókninni á Júlíusi Vífli af stað, en skömmu fyrir sýningu þáttarins gerði hann embættinu grein fyrir innstæðum í hans nafni á erlendum bankareikningum. 

Eftir sýningu þáttarins ákvað skattrannsóknastjóri svo að hefja rannsókn sína og því tók Ríkisskattstjóri erindi hans ekki til meðferðar. Það er engan veginn við Kastljós að sakast um það, en aftur á móti er það athugunarefni hvort skattyfirvöld hafi þar um of stýrst af fjölmiðlaumfjölluninni, svo mjög að réttur hafi verið brotinn á sakborningi og verði honum til málsbóta. Lögmaður hans heldur því fram að málinu hefði átt að ljúka á stjórnsýslustigi og hreint ekki átt að fara til sakamálameðferðar.

***

Annað tímabært dæmi og umhugsunarvert má nefna um aðkomu fjölmiðla að löggæslu í landinu og þar kemur Kastljósið einnig við sögu. Það varðar hið langa mál Seðlabanka Íslands gegn útgerðarfyrirtækinu Samherja, sem enn sér ekki fyrir endann á, þótt Hæstiréttur hafi loks kveðið upp dóm þar um (ippon hjá Samherja).

Málið er orðið býsna flókið og vekur mjög ákveðnar spurningar um vinnubrögð í Seðlabankanum, sem virti allar mótbárur og málsvarnir að vettugi og er nú, eftir að dómur Hæstaréttar liggur fyrir, enn með yfirlýsingar um að hann hafi nú samt haft rétt fyrir sér!

Hins vegar virðast flestir hafa gleymt því að mál þetta hófst í fjölmiðlum.

jölmiðlum. Þegar rannsókn sérstaks saksóknara, Seðlabankans og tollstjóraembættisins á meintum gjaldeyrisbrotum Samherja hófst, var frá því greint að tilefni hennar væru ábendingar starfsmanna Kastljóss. Rannsóknarblaðamenn þess höfðu þá skoðað málefni tengd útflutningi sjávarafurða og m.a. borið gögn um þau undir gjaldeyriseftirlit Seðlabankans. Í framhaldi af því hafi rannsóknin hafist, en gjaldeyriseftirlitið hefði farið þess á leit við Kastljós að það héldi í sér til þess að verja mikilvæga rannsóknarhagsmuni og við því var orðið.

Þessar lyktir málsins, ríflega sex árum síðar, hljóta að kalla á frekari skýringar Kastljóss, viðurkenningu á að fréttin hafi reynst röng og afsökunarbeiðni. Eitthvað hefur greinilega verið bogið við gögnin, vinnslu þeirra eða heimildarmennina (sem hljóta að hafa verið fleiri en einn).

Nema auðvitað að RÚV sé búið að semja um himinháa greiðslu til Samherja án þess að segja neinum.

***

 Aðeins um hið furðulega mál Jóns Gnarr og Banksys. Sögð var frétt af því að breski listamaðurinn Banksy hefði að bón Jóns Gnarr, þáverandi borgarstjóra, gefið honum eintak af einni frægustu mynd sinni, með því skilyrði að hún yrði á skrifstofu borgarstjóra. Jón taldi hins vegar að um persónulega gjöf til sín væri að ræða, deilt var um verðmæti myndarinnar, skattskyldu Jóns og svo framvegis, uns Jón kvaðst orðinn svo leiður á því að hann ætlaði að farga verkinu.

Þetta var allt mjög skrýtið mál, þar sem ótal margt stangaðist á, en frásagnir fjölmiðla miðuðust mjög við getgátur og óstaðfestar fullyrðingar. Um sumt bar það vott um óforvitni, þó á móti megi segja að Jón hafi ekki verið að gera þeim lífið mikið léttara. Einföld skoðun á verkinu hefði t.d. getað leitt í ljós hvort þetta var ódýr eftirprentun af netinu eða merkt mynd úr tiltekinni seríu, en munurinn þar á getur numið um 30 milljónum króna. Ekki verður heldur séð að neinn fjölmiðill hafi gert fyrirspurn til Pest Control, sem er kontór á vegum Banksys og fjallar einmitt um vafamál af þessu tagi. Nei, málið bara vall áfram þar til Jón gafst upp og ákvað að setja myndina í tætarann.

Ekki þó alls staðar. Ríkisútvarpið hefur t.d. haft verulegan áhuga á Banksy og verkum hans, eins og auðvelt er að sjá með netleit eða hjá Fjölmiðlavaktinni. Nema í liðinni viku, þá er eins og áhugi RÚV á Banksy hafi gufað upp. Jafnvel yfirlýsingar upplýsingafulltrúa Reykjavíkurborgar, um að borgin hefði blessað þetta og siðavottað fyrir sitt leyti, hlutu enga athygli. Bara nánast eins og þetta hefði allt gerst í bragga. Jafnvel þótt einn af eftirlætismönnum stofnunarinnar ætti í hlut. — Nei, það var ástæðulaust að fjalla nokkuð um það. Alveg þar til á þriðjudag, að öllum að óvörum var sögð frétt af því að Jón ætlaði að farga myndinni frægu, sem enginn hlustandi RÚV hafði heyrt um fyrr!

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim