*

sunnudagur, 19. maí 2019
Innlent 22. september 2018 11:05

Arnaldur og Yrsa mala gull

Hagnaður fyrirtækja um ritstörf Arnaldar Indriðasonar og Yrsu Sigurðardóttur nam samtals 106 milljónum króna á síðasta ári.

Ritstjórn

Gilhagi ehf., eignarhalds- og rekstrarfélag sem annast rekstur í tengslum við sölu bóka og hugverka Arnaldar Indriðasonar, hagnaðist um 92 milljónir króna á síðasta ári og jókst hagnaður félagsins um 56 milljónir milli ára. Rekstrartekjur námu 100 milljónum og drógust saman um 20 milljónir milli ára. Rekstrarhagnaður (EBIT) nam 86 milljónum króna og dróst saman um 17% milli ára. Vaxtatekjur félagsins námu 35 milljónum króna á síðasta ári og jukust um 32 milljónir milli ára. Tap vegna gengismunar nam 7,4 milljónum en var 61 milljón árið áður.  Þá nam hagnaður af verðbréfasafni 1,4 milljónum króna en 700 þúsund króna tap var af sama lið árið 2016.  Heildareignir Gilhaga námu 850 milljónum í lok árs. Þar af nam verðbréfaeign 724 milljónum króna og jókst um 341 milljón milli ára. Handbært fé í lok árs nam 49 milljónum króna. Eiginfjárhlutfall félagsins var 80% í árslok. Greiddur var 150 milljóna króna arður á árinu 2017. Gilhagi ehf. er að fullu í eigu Arnaldar.

Yrsa Sigurðardóttir ehf., félag samnefnds rithöfundar, hagnaðist um 14,5 milljónir á síðasta ári og dróst hagnaður félagsins saman um rúmar 2 milljónir milli ára. Höfundarlaun Yrsu námu 33 milljónum á síðasta ári en voru 36 milljónir árið 2016. Rekstrarhagnaður félagsins nam 18 milljónum króna og dróst saman um 3 milljónir milli ára. Eignir félagsins námu 33 milljónum króna í lok árs og þar af nam handbært fé 16 milljónum króna. Eigið fé nam tæpum 30 milljónum í lok árs og eiginfjárhlutfall var 89% í lok 2017. 15 milljóna króna arður var greiddur út árið 2017 en 25 milljónir verða greiddar út á árinu 2018 samkvæmt skýrslu stjórnar. Félagið er að fullu í eigu Yrsu.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim