Arnar Geirsson hjartaskurðlæknir hefur verið ráðinn yfirlæknir hjartaskurðdeildar Yale New Haven Hospital, háskólasjúkrahúss Yale í New Haven í Connecticut í Bandaríkjunum.

Arnar Geirsson er fæddur 9. október 1971. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1990, útskrifaðist frá læknadeild Háskóla Íslands 1997, stundaði sérnám í almennum skurðlækningum við Yale frá 1998 til 2005 og íhjartaskurðlækningum við University of Pennsylvania frá 2005 til 2007.

Hann vann sem sérfræðingur í hjartaskurðlækningum á Yale háskólaspítalanum frá 2007 til 2012 og á Landspítalanum frá 2012 og þar til hann fór aftur til starfa sem sérfræðingur á Yale sumarið 2016. Arnar hefur gefið út fjölmargar vísindagreinar og stundar grunn- og klínískar rannsóknir tengdar ósæðarsjúkdómum og míturlokusjúkdómum.

Arnar er giftur Sigríði Benediktsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra fjármálastöðugleika Seðlabanka Íslands, nú kennara við Jackson Institute við Yale háskólann. Þau eiga saman þrjá syni á unglingsaldri og búa í New Haven í Connecticut.

Með stærstu sjúkrahúsum Bandaríkjanna

Yale-New Haven Hospital er með stærstu sjúkrahúsum Bandaríkjanna með 1.540 sjúkrarúm að því er segir í fréttatilkynningu. Það er jafnframt aðalsjúkrahús Yale-New Haven Health System, heilbrigðisþjónustu sem samanstendur af fimm sjúkrahúsum með yfir 7.500 heilbrigðisstarfsmenn og samtals 2.560 sjúkrarúm.

Á hjartaskurðdeild Yale starfa 10 sérfræðingar sem gera um 1.500 hjartaskurðaðgerðir árlega. Deildin sérhæfir sig í flóknum hjartaaðgerðum, lokuaðgerðum (bæði opnum og innanæðaðgerðum), ósæðaraðgerðum, hjartaskiptum og barnahjartaskurðlækningum.

Læknaskóli Yale er jafnframt einn af fremstu læknaskólum Bandaríkjanna og hafa allmargir Íslendingar stundað þar sérfræðinám.