Arnar Þór Óskarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Flying Tiger Copenhagen á Íslandi. Arnar Þór hefur langa reynslu í smásölu, starfaði áður sem innkaupastjóri á smásölusviði Olís og vörumerkjastóri hjá Odda. Þar áður starfaði Arnar til fjölda ára hjá 10-11. Arnar er viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Bifröst og með diplómagráðu í verslunarstjórnun.

“Flying Tiger Copenhagen er gríðarlega spennandi fyrirtæki í örum vexti, það eru forréttindi að fá að vinna með alþjóðlegu smásölufyrirtæki með allri þeirri þekkingu sem þar býr,” segir Arnar Þór.

Flying Tiger Copenhagen rekur 5 verslanir á Íslandi: á Laugarvegi, í Smáralind og Kringlunni, á Akureyri og á Selfossi. Verslanir Flying Tiger Copenhagen eru orðnar rúmlega 800 á heimvísu allt frá New York til Tokyo og frá Kaupmannahöfn til Selfoss.

Fyrstu verslanirnar utan Danmerkur voru opnaðar hér á Íslandi árið 2001, undir vörumerkinu Tiger, en með nýju vörumerki og endurmörkun hyggst félagið leggja aukinn metnað í hönnun og tengsl við rætur sínar í Danmörku. Samkvæmt fréttatilkynningu hlaut félagið nýverið hin eftirsóttu Red Dot hönnunarverðlaun.