Því miður er ekkert til sem heitir hlutabréfamarkaður á Íslandi í dag. Hann hrundi með bönkunum. Hins vegar þarf að vinna markviss að því að byggja hann upp aftur og það kemur með auknu trausti og gegnsæi.

Þetta sagði Árni Jón Árnason, yfirmaður fjármálamarkaða hjá Deloitte, á fundi Deloitte, Kauphallarinnar og Viðskiptaráðs um virkan hlutabréfamarkað sem nú stendur yfir í Turninum í Kópavogi.

Árni Jón sagði að heimilin þurfi að geta fjárfest beint á hlutbréfamarkaði en ekki bara í gegnum lífeyrissjóðina. Hrein eign heimilanna er 3.700 milljarðar króna og að mestu bundin í húsnæði. Á sama tíma er markaðsvirði skráðra fyrirtækja um 230 milljarðar þannig að eignir heimilanna eru margfalt meiri.

Þá sagði Árni Jón að mjög mikilvægt væri að stjórnvöld höguðu skattareglum þannig að hvatt væri til hlutabréfakaupa. Þannig mætti t.d. hugsa sér að einstaklingar gætu fjárfest 6% að tekjuskattstofni í séreignasparnaði, hlutabréfum eða sprotafyrirtækjum. Punkturinn væri þó sá að núverandi skattastefna stjórnvalda letur almenning til hlutabréfakaupa. Hins vegar væri þörf á öflugum hlutabréfamarkaði hér á landi og það væri allra hagur að markaðurinn tæki við sér á ný.