Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, hefur verið valinn viðskiptafræðingur ársins af Félagi viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Forseti Íslands og verndari verðlaunanna, Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn á Íslenska þekkingardeginum sem haldinn var á föstudaginn.

Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars: Árni er með Cand. oecon próf frá háskóla Íslands og MBA próf frá IMD í Sviss árið 2004. Árni hefur verið duglegur að sækja sér menntun en á síðasta ári tók hann námskeið í stjórnarmennsku einnig við IMD. Árni Oddur tók við starfi forstjóra Marel síðla árs 2013 en sat þar áður í stjórn félagsins í átta ár, lengst af sem stjórnarformaður. Árni Oddur býr yfir alþjóðlegri reynslu og er hann nú stjórnarmaður í félaginu Fokker Technologies. Áður en Árni tók við núverandi starfi var hann forstjóri Eyris Invest og vann þar áður í Búnaðarbankanum.

Kerecis hlaut íslensku þekkingarverðlaunin en ORF líftækni og Carbon Recycling International voru einnig tilnefnd.

Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars: Kerecis er gott dæmi um fyrirtæki sem byggir á hugviti og nær þannig að skapa mikil verðmæti úr náttúrulegri afurð sem fellur til við aðra nýtingu.