„Það er mat flutningsmanna að í ljósi þeirrar stöðu sem er á leigumarkaðnum um þessar mundir þar sem erfitt er að fá íbúð til leigu á boðlegum kjörum og litlar íbúðir á besta stað eru bæði illfáanlegar og dýrar er nauðsynlegt að grípa þegar til aðgerða til að auka framboð á leiguíbúðum. Lagt er til að leiga á einni íbúð í langtímaleigu verði skattfrjáls og þannig verði þeim ívilnað sem leigja íbúðir út til raunverulegrar búsetu og fleiri þannig hvattir til að gera slíkt hið sama.“ Frumvarpið má sjá á heimasíðu Alþingis .

Frumvarpið leggur til breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, sem miðar að því að undanþiggja tekjur einstaklinga vegna útleigu einnar íbúðar fjármagnstekjuskatti. Gerð eru skilyrði um að húsaleiga verði aldrei hærri en meðalleiguverð á því svæði sem íbúðin er staðsett. Þannig er gert ráð fyrir að halda aftur af hækkunum á leiguverði. Einnig er gert að skilyrði að um sé að ræða leigusamning til a.m.k. tólf mánaða.