Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar segir að umræðan um stjórnarskrármálið hafi verið óboðleg á köflum. Þetta kom fram á Rás 1 í morgun, en Árni var gestur morgunútvarpsins.

Hann segir að engin fær leið hafi verið til að klára stjórnarskrármálið fyrir kosningar. Mestu máli hafi skipt að finna málinu færan farveg þar sem stjórnarmeirihlutanum brást samstaða til að koma málinu í gegn. Málið hafi einfaldlega fallið á tíma, málið kom fyrst fullbúð til annarar umræðu þegar sjö þingdagar voru eftir.

Hann segir að fjöldi fólks hafi litið svo á „að annað hvort skrifir þú upp á heilan pakka gagnrýnislaust eða þú ert svikari, þjóðníðingur eða handbendi ráðandi afla. Þetta er bara óboðleg umræða.“

Hann segir að lokum að „það sé komið nóg að þessari orðræðu, við getum ekki leitt umræðu um stjórnarskránna áfram á forsendum maóískrar rétttrúnaðar-orðræðu þar sem sumir eru góðir og aðrir eru vondir“.