„Kaupverðið er að fullu greitt. Það var ekki fengið að láni, hvorki hjá Jóhannesi né öðrum. Það var eigið fé, mínir peningar,“ segir Árni Pétur Jónsson, sem í gegnum félag sitt hefur keypt 51% hlut Jóhannesar Jónssonar í Ísland-Verslun, félaginu sem rekur Iceland-verslanirnar. Jóhannes á eftir 12% hlut og félag Iceland Foods í Bretlandi 37%. Ástæða þess að Jóhannes ákvað að selja hlut sinn í versluninni sem opnaði í júlí í fyrrasumar er sú að veikindi hans hafa tekið sig upp á ný og þarf hann tíma til að takast á við þau. Árni Pétur vill ekki gefa upp hvað hann greiddi fyrir hlutinn og segir það trúnaðarmál.

Árni Pétur tekur við stöðu framkvæmdastjóra Iceland af Jóhannesi, sem sest í stól stjórnarformanns. Hann mun sinna starfinu samhliða stöðu sinni sem framkvæmdastjóri klukkubúðanna 10-11.

10-11 og Iceland renna ekki saman

Árni Pétur segir í samtali við vb.is hafa fylgst lengi með uppbyggingu Iceland-verslananna hér á landi. Upphaflega hafi staðið til að hann kæmi að þeim með Jóhannesi. Af því varð ekki enda í nægu að snúast í kringum 10-11. Hann bendir á að nú styttist í að verða tvö ár síðan hann keypti 10-11.

Árni Pétur segir að þrátt fyrir kaupin sé ekki inni í myndinni að renna verslunum Iceland og 10-11 undir eitt vörumerki. Þvert á móti verður þeim haldið aðskildum.

„Það var annað félag í minni eigu sem kaupir 51% hlut í Iceland en annað rekur 10-11. Ég held því alveg ótengdu,“ segir Árni Pétur.