Arnór Gunnarsson hefur verið ráðinn forstöðumaður fjárfestinga hjá VÍS. Ráðning hans er hluti af þeim skipulagsbreytingum sem ráðist var í hjá VÍS í síðasta mánuði og hafa það að markmiði að efla þjónustu við viðskiptavini og styðja við enn frekari vöxt félagsins segir í fréttatilkynningu.

Arnór kemur til VÍS frá Öldu sjóðum þar sem hann var forstöðumaður hlutabréfa. Hann hefur Bsc. próf í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og hefur lokið prófi sem Chartered Financial Analyst auk þess að vera löggiltur verðbréfamiðlari.

Arnór hefur starfað á fjármálamarkaði frá árinu 2001, meðal annars sem; forstöðumaður sjóðastýringar Rekstrarfélags Kaupþings, sjóðstjóri Frjálsa lífeyrissjóðsins auk fleiri sjóða í umsjón eignastýringar fagfjárfesta hjá Kaupþingi, forstöðumaður hlutabréfasviðs Stefnis og síðast sem forstöðumaður hlutabréfa hjá Öldu sjóðum.

Arnór hefur störf þann 1.desember en Helgi Bjarnason forstjóri VÍS segist vera gríðarlega ánægður með að hafa fengið Arnór til liðs við fyrirtækið. „Ég er þess fullviss að reynsla hans og hæfileikar munu reynast okkur vel í þeim verkefnum sem fram undan eru.“