Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,2% í apríl frá fyrri mánuði samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands. Þetta kemur fram á heimasíðu Íbúðalánasjóðs.

Árshækkun leiguverðs, samkvæmt þinglýstum leigusamningum, mælist nú 6,2% og hefur ekki mælst lægri síðan í júní 2016. Líkt og í síðasta mánuði er þó hækkun leigu mæld á ársgrundvelli örlítið meiri en hækkun íbúðaverðs sem mælist nú 5,4%. Fyrr en í mars síðast liðnum hafði slíkt ekki gerst síðan í lok árs 2014.

Fyrir ári síðan var árshækkun leigu rúm 13% og hækkun íbúðaverðs tæp 23%. Talsvert rólegri taktur er því nú á húsnæðismarkaði samanborið við stöðuna fyrir ári síðan.