Ársreikningurinn Seltjarnanesbæjar var lagður fram í bæjarráði í gær. Heildarskuldir og skuldbindingar í árslok námu alls 1.753 milljónum króna. Þar af námu reiknaðar lífeyrisskuldbindingar 1.224 milljónum króna en þær hækkuðu milli ára um 189 milljónir.

Langtímaskuldir námu í árslok 183 milljónum og veltufjármunir námu 1.242 milljónum. Skuldahlutfallið er með því lægsta á landinu eða um 53%.

Rekstrarniðurstaða varð neikvæð um 126,7 milljónir króna en fjárhagsáætlun hafði gert ráð fyrir afgangi upp á 6,6 milljónir króna. Í fréttatilkynningu frá Seltjarnarnesbæ segir að meginskýringin á lakari afkomu, séu miklar launahækkanir umfram þær forsendur sem fjárhagsáætlun byggði á. Nýir kjarasamningar og hækkanir vegna starfsmats á haustmánuðum hafi hækkað laun og tengd gjöld um 228 millljónir króna.

Íbúum fjölgar

Íbúar voru 4.418 í árslok 2015. Íbúum hefur fjölgað lítið eitt á síðastliðnum þremur árum og nemur fjölgun frá árslokum 2012 tæpum 2%. Í tilkynningu frá Seltjarnarnesbæ segir að líkur bendi til að íbúum muni fjölga meira á komandi misserum en það muni treysta tekjustofna bæjarins, stuðla að betri nýtingu innviða og styrkja þá stefnu að halda álögum á bæjarbúa jafnan í lágmarki.