„Þetta er ekki allt fullmótað. Ef allt gengur eftir sem við hyggjum þá mun Finnur.is ekki koma út í því formi sem hann nú er í. Efni blaðsins mun ekki hverfa enda er það ágætt,“ segir Óskar Magnússon, útgefandi Morgunblaðsins. Hann vill ekki fara nánar út í hvaða breytinga má vænta.

Finnur.is, fríblað Morgunblaðsins, mun heyra sögunni til innan skamms en í bígerð er að hætta útgáfu þess. Efni blaðsins verður dreift inn í önnur blöð.

Finnur.is hefur komið út með Morgunblaðinu í um tvö ár.

Finnur.is
Finnur.is

Kastar hrakspám út í hafsauga

Óskar segir í samtali við vb.is nokkrar breytingar hafa verið gerðar í útgáfu blaðsins sem svartsýnisspámönnum hafi í upphafi litist illa á.

Þar á meðal er tilboð til háskólanemenda á iPad-spjaldtölvum með áskrift að Morgunblaðinu.

„Svartsýnir menn sögðu sem svo að þeir væru að gera þetta því þar fengju þeir gott tæki á þægilegum kjörum og myndu ekki skoða blaðið. Þetta var áhætta," segir Óskar en bendir á að viðtökurnar hafi verið umfram væntingar og verði í næstu viku gengið lengra þar sem öðrum áskrifendum verði veitt sambærilegt tilboð.