Í dag opnaði fjárfestingabankinn Askar Capital skrifstofu í Búkarest í Rúmeníu að því er kemur fram í tilkynningu. Meðal viðstaddra var forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, en auk hans voru viðstaddir frammámenn úr rúmensku viðskiptalífi og viðskiptasendinefnd frá Útflutningsráði sem er í föruneyti forsetans.


Í tilkynningu kemur fram að meginstarfsemi skrifstofunnar er fólgin í að finna og meta fjárfestingatækifæri í fasteignum í Rúmeníu fyrir viðskiptavini Askar, en mikill uppgangur hefur verið þar að undanförnu. Skrifstofan mun einnig leita tækifæra í nærliggjandi löndum. Askar hefur ráðið Rúmenann Florin Bancila til að veita Askar Romania SRL forstöðu.


"Við erum mjög spenntir fyrir innreið á rúmenskan markað. Við höfum þegar tekið þátt í nokkrum fjárfestingaverkefnum þar og munu nú færa þá starfsemi enn frekar út? segir Tómas Sigurðsson, framkvæmdastjóri Askar fasteignaráðgjafar í tilkynningu.

?Opnun skrifstofunnar í Rúmeníu mun leiða til fjölgunar þeirra verkefna sem við höfum unnið að þar í landi ásamt samstarfsaðilum okkar,?  segir Haukur Harðarson, stjórnarformaður Askar Capital, í tilkynningu.


Askar Capital er fjárfestingarbanki sem starfar undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Forstjóri bankans er Dr. Tryggvi Þór Herbertsson. Askar Romania SRL verður dótturfélag Askar fasteignaráðgjafar ehf. sem er dótturfélag Askar Capital hf.