Askar fasteignaráðgjöf eru um þessar mundir þátttakendur í tveimur byggingaverkefnum í og við Búkarest í Rúmeníu. Um er að ræða lóðir sem ætlunin er að reisa íbúðir á. Annars vegar áformar félagið að reisa 21.000 fermetra skrifstofu- og þjónustubyggingu fyrir um 26 milljónir evra á lóð í norðurhluta borgarinnar að því er kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.  Hins vegar eru Askar með 25.000 fermetra land í Búkarest sem bíður skipulagningar.

Þessi verkefni tengjast samstarfi Aska við Laref (Landsbanki Aquila Real Estate Fund), en farið var af stað með þann sjóð fyrir einu og hálfu síðan. Laref er fjárfestirinn í þessum verkefnum en Askar fjárfestingaráðgjöf tóku að sér að finna fjárfestingatækifæri í fasteignum og búa til allan þá grunngerð sem þarf fyrir fjárfestinguna. Að sögn Tómasar Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Aska fjárfestingaráðgjafar, sjá þeir gjarnan um að festa kaup á eigninni með takmarkaðri ábyrgð. Síðan er gengið frá áreiðanleikakönnun, fjármögnun og jafnvel sjá þeir um að reka verkefnið þar til eignin er seld. Tómas sagði að stundum gerðist það að menn seldu slíkt verkefni frá sér áður en rekstur væri hafinn.

Að sögn Tómasar eru þeir að skoða nokkur verkefni í Suður- og Austur-Evrópu, enda sé um að ræða spennandi markað nú þegar Rúmenía er orðin hluti af Evrópusambandinu. Auk þess vinna Askar fjárfestingaráðgjöf á fleiri svæðum. Félagið er með skrifstofur í Lúxemborg og Rúmeníu og er að opna skrifstofur í London og á Indlandi. Askar hafa ráðið Rúmenann Florin Bancila til að veita Öskum Romania SRL forstöðu. Askar fasteignaráðgjöf eru með fjárfestingaverkefni í Bandaríkjunum og nokkrum löndum Vestur-Evrópu. Einnig er félagið með verkefni sem eru að fara af stað í Litháen, Rúmaníu, Tyrklandi, Dubai, Hong Kong og Macau í Kína.

"Verkefni okkar eru landfræðilega mjög dreifð og eiga það eiginlega bara sameiginlegt að vera norðan miðbaugs - án þess að við höfum útilokað aðra hluta heimsins," sagði Tómas. Í fasteignaráðgjöf Aska starfa nú 18 starfsmenn.