Hjá Símanum kostar Premium mánaðaráskrift að Spotify tónlistarveitunni 1.490 krónur en ef hún er keypt beint af Spotify kostar hún 9,99 evrur, sem gera 1.200 krónur.

Þar að auki er fyrsti mánuðurinn frír hjá Spotify, en hins vegar fylgir sex mánaða áskrift með nokkrum vörum Símans án endurgjalds.

Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir upplýsingafulltrúi Símans segir árs áskrift þess vegna ódýrari hjá Símanum í samtali við mbl.is , en áskriftin fylgir Endalausri snjallfarsímaáskrift, netáskriftum og Heimilispakkanum.

„Við vinnum stöðugt að því að endurmeta verð og fylgjumst því grannt með stöðunni,“ segir Gunnhildur um áhrif styrkingar krónunnar á þennan verðsamanburð.

Spotify Premium í gegnum símann, fyrir utan annan kostnað, kostar þá 8.940 krónur hjá Símanum en 13.126 krónur beint frá Spotify.

„Þetta er ein stærsta tónlistarveita í heimi með tugmilljónir áskrifenda á heimsvísu sem þeir selja beint,“ segir Gunnhildur en hún segir það trúnaðarmál hvort Síminn fái magnafslátt hjá tónlistarveitunni.

„Við höfum verið ánægð með kjörin og tækifærin sem við getum boðið viðskiptavinum okkar. Við vonum að samstarfið við Spotify verði sem lengst og farsælt sem fyrr.

Við bjóðum neytendum val og þessi fjölbreytni gefur þeim færi á betra verði. Auðvelt er að kynna sér möguleikana og velja þann kost sem hentar hverjum og einum best og hvetum við alla Spotify notendur til þess.“