Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ætlar að bjóða sig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í haust. Áslaug er ritari Sjálfstæðisflokksinsog hefur áður verið formaður Heimdallar, félags ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík. Áslaug tilkynnti um þetta á Facebook-síðu sinni í dag.

Hún vill fara á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í næstu kosningum. Hún segist ekki búin að ákveða sæti til að bjóða sig fram í en segist stefna hátt hvað það varðar. Áslaug segir að ungt fólk verði að eiga málsvara - kjósendur verði að geta speglað sig í frambjóðendum.

Í viðtali á Vísi.is segir Áslaug að það séu litlu frelsismálin sem geri allt vitlaust. Hún vísar þá til mála á borð við áfengisfrumvarpið, en hún hefur þurft að þola talsverða gagnrýni fyrir ummæli sem hún lét falla varðandi hvítvín og humar. Á myndinni að ofan er Áslaug með Ólöfu Nordal innanríkisráðherra og Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra.