Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir mun taka við embætti varaformanns Sjálfstæðisflokksins en Áslaug hefur verið ritari flokksins frá árinu 2015. Mun Áslaug vera bæði ritari og varaformaður fram að landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem haldinn verður 3. til 5. nóvember næstkomandi. Þetta staðfesti Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins í hádegisfréttum Bylgjunnar .

„Ég hef beðið hana að taka við stöðu varaformanns og hún mun gegna því embætti meðfram því að vera ritari“ sagði Bjarni. Frá því að Ólöf Nordal féll frá hefur flokkurinn verið án kjörins varaformanns.