Þá rúma tvo mánuði sem liðnir eru af árinu hafa borist Vegagerðinni 95 tilkynningar um tjón af völdum hola í malbiki að því er Morgunblaðið greinir frá.

Allt árið í fyrra bárust hins vegar 179 tilkynningar og 135 árið 2016. Hins vegar var árið 2015 metár með 338 tilkynningar um svokallaðan holuakstur, en algengt er að dekk bifreiða og undirvagnar skemmist, þó skemmdirnar geti orðið alvarlegri.

Ábyrgð hafnað þrátt fyrir verulegt tjón

Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda segir félagið hafa á sínum borðum mál þar sem ábyrgð hafi verið hafnað þrátt fyrir að um verulegt tjón sé að ræða.

„Ástandið er hörmulegt og það er óþolandi að það þurfi að vera þannig ár eftir ár,“ segir Runólfur sem segir ástand vega á höfuðborgarsvæðinu blasa við öllum, en fregnir berist þó um slæmt slitlag um allt land.

„Það sem er þó jákvætt er að veghaldarar hafa í ár sýnt meiri ábyrgð en oft áður. Bæði með því að vekja athygli vegfarenda á slæmu ástandi og með því að grípa fyrr inn í en oft áður til að tryggja að ekki verði meiri skaði,“

Rannsaka þurfi áhrif þynnra slitlags

Segir Runólfur að rannsaka þurfi hvers vegna ástandið sé svona slæmt ár eftir ár, en á þessum árstíma koma holur jafnan í ljós þegar snjóa leysir.

„Það var tekin meðvituð ákvörðun um niðurskurð og menn báru fyrir sig hrun. Við erum nú að súpa seyðið af þessari ákvörðun, að draga úr viðhaldi og jafnvel að leggja þynnra slitlag en áður var gert. Er sanngjarnt að vegfarendur beri það tjón að fullu? Bera kjörnir fulltrúar ekki ríkari ábyrgð en fram hefur komið til þessa?“