Donald Kohn, aðstoðarseðlabankastjóri Bandaríkjanna, segist reikna með hóflegum efnahagsbata í bandaríska hagkerfinu samfara því að smám saman muni draga úr verðbólguþrýstingi.

Þetta kom fram í ræðu sem hann flutti á ráðstefnu lífeyrissjóða í New Orleans fyrr í dag.

Kohn sagði að í ljósi þessara efnahagsvæntinga virtist núverandi vaxtastig bandaríska seðlabankans „viðeigandi til að stuðla að aukinni atvinnuþátttöku jafnframt því að vinna gegn verðbólgu til meðallangs tíma”.

Hann varaði hins vegar almenning við því að ekki bæri að túlka róttækar vaxtalækkanir seðlabankans – vextir hafa lækkað um 3,25 prósentustig frá því í september – sem vísbendingu um að peningamálayfirvöld hefðu litlar áhyggjur af verðbólgu.

Kohn segir seðlabankann fylgjast grannt með vísbendingum um að hækkandi orku- og matvælaverð sé farið að skila sér inn í verðbólguvæntingar almennings.

Engar verðhækkanir á fasteignamarkaði framundan

Sumir sérfræðingar hafa gagnrýnt vaxtalækkanir seðlabankans og sagt að þær hafi orðið til þess að hraða veikingu Bandaríkjadals og ýtt undir verðhækkanir á hrávörumörkuðum.

Kohn svaraði þessari gagnrýni og sagði að þrátt fyrir að peningastefna bankans hefði haft einhver áhrif á þessa þróun þá hefðu þau „engu að síður verið lítil”.

Enda þótt Kohn viðurkenndi að aðstæður í hagkerfinu og á fjármálamörkuðum væru „enn erfiðar”, sagðist hann reikna með viðsnúningi í efnahagslífinu á seinni helmingi þessa árs. Hagvöxtur ætti síðan að taka kröftuglega við sér í byrjun næsta árs, að mati Kohn.

Jafnvel þótt Kohn segist vongóður um skjótan efnahagsbata í hagkerfinu varaði hann við því að hagvöxtur gæti „hlutfallslega orðið fremur hóflegur” á næstu misserum borið saman við síðustu ár.

Hann benti á í því samhengi að það væri ólíklegt að við myndum sjá einhverjar hækkanir á fasteignamarkaði á næstunni, jafnvel eftir að núverandi niðursveiflu á markaðnum líkur. Af þeim sökum sé sennilegt að draga muni eitthvað úr einkaneyslu almennings samfara því að sparnaður heimilanna eykst.