Ástralska ríkisstjórnin hefur stöðvað kínverska fjárfesta í að taka stjórn á stærsta rafmagnsdreifikerfi landsins. Vísar ríkisstjórnin í áhyggjur af þjóðaröryggi.

Sagt gegn þjóðarhagsmunum

Í yfirlýsingu sagði fjármálaráðherra landsins, Scott Morrison að tilboð fjárfesta frá Kína og Hong Kong væri „gegn þjóðarhagsmunum.“

Ríkisrekna kínverska rafmagnsdreifingarfyrirtækið og Cheung Kong Infrastructure Holdings (CKI) frá Hong Kong reyndu að kaupa 50,4% ráðandi hlut í Ausgrid, sem er stærsta rafmagnsdreifingarfyrirtæki landsins, staðsett í Nýja Suður Wales.

Milljarðamæringurinn Li Ka-shing frá Hong Kong sem á CKI segir í yfirlýsingu að „Við trúum því að ástralska ríkisstjórnin hljóti að hafa sínar ástæður sem ekki eru öllum ljósar fyrir ákvörðuninni. Þær tengjast ekki CKI.“

Viðskipti að andvirði 7,5 milljarðs dala

Ástralska ákvörðunin kemur á sama tíma og Bretland hefur frestað því að samþykkja byggingu kjarnorkuvers við Hinkley Point, en kínverska ríkiskjarnorkufyrirtækið á minnihluta í verkefninu, á svipuðum forsendum.

Salan á rafmagnsdreifikerfinu er talið vera að andvirði 7,5 milljarða Bandaríkjadala, myndi gefa fjárfestunum frá Kína og Hong Kong ráðandi hlut í Ausgrid í 99 ár. Fyrirtækið hefur höfðað til alþjóðlegra fjárfesta því það getur sýnt fram á öruggan jákvæðan hagnað.

Hafa til 18. ágúst til að svara áhyggjum

Kínversk fyrirtæki hafa verið að kaupa upp eignir út um allan heim, og hafa meðal annars keypt eignir og orkufyrirtæki víða í Asíu.

Scott Morrison segir að fjárfestarnir verði að svara áhyggjum af þjóðaröryggismálum, og þeir hafi til 18. ágúst til að koma með tillögur þess efnis, eftir það verði endanleg ákvörðun tekin í málinu.